31 janúar 2009

Veður í janúar.

Veður: 5,9/15,5° ú 9 mm. Hálfskýjað fyrrihluta dagsins en þykknaði upp síðdegis og rigning undir kvöld.

clip_image002Hér kemur tölulegt yfirlit janúar. Mánuðurinn var kaldur og úrkomusamur. Úrkoma alls 319 mm. Og lægsti hiti -6 sem verður að teljast mikið hér, hæsti hiti aðeins 16,4° Meðalhiti sólarhringsins 8,5°

30 janúar 2009

Leikfimi

Veður: 9,2/14,3 ú 30,2mm. Byrjaði að rigna um hádegi.

Það kom skemmtilega á óvart í leikfiminni í morgunn að við fengum að gera youga æfingar mest af tímanum, verst að sumir þátttakendur skemmdu dálítið fyrir með því að hafa ekki hljótt.

clip_image002

Á þessari mynd var verið að hita upp, en það sést vel á myndinni að kennarinn raðaði mottunum skemmtilega upp og var svo með mikið af kertum til að ná góðri stemmingu.

29 janúar 2009

Vatnavextir

Veður: 13,4/15,7° úrkoma 16,9 mm. Þokusúld fyrst í morgunn, síðan þurrt og nokkrar sólarstundir um miðjan daginn.

Það er búið að rigna svo drjúgt undanfarið að nú eru sumar ár farnar að flæða yfir bakka sína.

clip_image002

Þessi mynd er tekin í dag við Vouga ána, ef það hækkar svo sem hálfan metra í henni til viðbótar á þessum slóðum fer vegurinn þarna undir vatn.

28 janúar 2009

Veður

Veður: 11,1/15,3° úrkoma 41,9 mm þokusúld rigning.

27.1.Veður

Veður: 8,4/12,4° úrkoma 16,3 mm. þokusúld/rigning.

Seinkunin á veðurlýsingunni stafar af því að það varð rafmagnslaust hér klukkan tíu í gærkvöldi og stóð í tvo og hálfan tíma.

26 janúar 2009

Veður

Veður: 4,4/13,3° úrkoma 10,3 mm. skúraveður í dag en bjart á milli skúranna.

Risapottur

clip_image002Ég má til með að sýna þessa mynd sem ég tók í gær af potti á hlóðum. Við vorum boðin í mat í gær ásamt 20 öðrum og það var greinilega sett ríflega í pottinn, því þetta var eftir í honum að lokinni veislunni. Það var verið með tvo aðalrétti þarna í gær, sá fyrrivar með grjónum og einhverjum smáum kjötbitum. Ekki tókst okkur að bera kennsl á allar kjöttegundirnar og þegar farið var að spyrjast fyrir um hvað kjöt væri í þessum rétti kom í ljós að það var lifur, hjörtu og lungu. Ég var að spá í hvort það hefði verið settur smokkfiskur í réttinn, en það voru þá lungun sem ég kannaðist ekki við enda aldrei firr bragðað lungu. Við höfum nokkrum sinnum verið boðin í mat á þetta heimili og þá jafnan verið sett í heiðurssæti til hægri handar húsbóndanum, en í gær máttum við láta okkur linda a- vera færð niður um eina skör, því klerkur bæjarins var að sjálfsögu í heiðurssætinu og þar næst kona sem fylgdi honum. Ég reikna með að hún sé titluð ráðskona, því ekki mega klerkarnir í kaþólskunni vera giftir.

Þetta var hið ágætasta matarboð, en mikið fjandi var mér orðið kalt þegar því lauk, þó ég væri í úlpu og fullum vetrarklæðnaði, því ég vissi hvers vænta mátti með hitann í borðstofunni. Að sitja í óupphituðu herbergi hér í landi á þessum árstíma í þrjá tíma er ekkert notalegt. Það er rannsóknarefni hvers vegna heil þjóð lætur sig hafa það að hírast í köldum húsum allan veturinn, jafnvel margir sem hafa vel efni á að hita hýbýli sín láta það ógert. Í besta falli er einn arinn einhversstaðar í húsinu, en öll önnur herbergi óupphituð. Mikið rosalega var gott að komast í bílinn og byrja að hita sig upp og í framhaldi af því að koma inn í Austurkoti, því þar inni er alltaf notalega heitt. Ég væri löngu dauður ef ég ætti að búa í svona húskulda.

25 janúar 2009

Veður

Veður: 5,1/12,1° úrkoma 18,6 mm. skýjað og nokkur vindur.

24 janúar 2009

Fallleg blóm.

Veður: 7,9/15,5° úrkoma 1,4 mm hálfskýjað, góðar sólarstundir.

Það var kærkomið að fá þurrt og bjart veður í dag eftir rigningu undanfarinna daga. Ég dreif mig út í garð eftir hádegið til að spjalla svolítið við arfann. Eftir arfatínsluna fékk ég mér gönguferð að ánni okkar til að sjá hvort hún væri ekki góð með sig eftir rigninguna, jú það bar ekki á öðru hún var bara nokkuð góð með sig, eins og sjá má á þessari mynd.

clip_image002

Hún Mathild grannkona okkar færði mér í morgunn þessar falllegu orkídeur í tilefni afmælis míns í síðustu viku. Þetta eru blóm sem hún ræktar sjálf. Skíringin á að hún færði mér blómin viku eftir afmæli var sú að hún hafði skrifað afmælisdaginn minn hjá sér til að muna nú örugglega eftir honum en láðist svo að líta á minnismiðann.

clip_image004

23 janúar 2009

Veður

Veður: 13,7/14,4° úrkoma 8,9mm. Rigning og nokkur vindur einkum síðdegis.

22 janúar 2009

Rigning

Veður: 7/14,4° úrkoma 58,4 mm. Rigning í allan dag.

Mér finnst þessi mynd hæfa vel veðrinu í dag.

clip_image002

21 janúar 2009

Vegna hækkandi sólar?

Veður: 0,3/11,7 úrkoma 1,4mm. Fram á miðjan dag var þokumóða í lofti, sem sólargeislum tókst að smjúga í gegnum af og til, en eftir kaffi var smávegis rigningarúði.

Ætli það sé ekki hækkandi sól sem hefur þau áhrif að í dag fannst mér vera kominn tími til að fara að gera eitthvað í garðinum. Ég setti safnhaugamold í spildu sem ég fór svo með tætarann yfir til að blanda moldinni saman, í þessa spildu er svo meiningin að setja bóndabaunir. Einnig losaði ég um moldina í kring un rósirnar.

20 janúar 2009

“Fannfergi”

Veður: 3,1/10,1° úrkoma 15,1 regn og haglskúrir í dag.

Þetta er átjándi veturinn minn hér í landi og sá „snjóþyngsti“ til þessa. Í dag gerði hressilegt haglél, svo það gránaði í rót og það er í annað sinn í vetur sem slíkt skeður. Hingað til hafa flestir vetur liðið án þess að eitt einasta snjókorn léti sjá sig hér.

clip_image002

Hér gefur á að líta fannfergið í dag og það leið heil klukkustund áður en það var horfið með öllu.

19 janúar 2009

Veður

Veður: 7,2/15,4° úrkoma 15,8 mm. rigningaskúrir í dag.

18 janúar 2009

Rigning

Veður: 9,2/14,5° úrkoma 20,6 mm .Samfelld rigning í allan dag.

17 janúar 2009

Fyrsti sláttur 2009

Fyrsti sláttur 2009.

Veður: -0,3/15,8° smávegis þokumóða í lofti frameftir degi, en þykknaði upp undir kvöld

Síminn hérna í húsinu er bilaður, en búið að beina samtölum sem kunna að koma í farsímann. Sem betur fer er tölvutengingin í góðu lagi, svo þessi bilun bagar okkur lítið.

clip_image002

Hér sést sláttuvélin að afloknum fyrsta slætti á þessu ári. Þessi yfirferð með sláttuvélina yfir grasflötina var líka til að hreinsa upp lauf, svo nú er grasflötin orðin snyrtileg að sjá.

clip_image004

Það er gott að geta teygt sig eftir appelsínu á tréð ef maður verður svangur við sláttinn. Nú eru appelsínurnar orðnar safaríkar og fullþroskaðar, en það er liðinn mánuður síðan ég byrjaði að borða þær, en þá voru þær ekki orðnar alveg nógu safaríkar og svolítið súrar.

16 janúar 2009

Veður

Veður:4,9/14,9 hálfskýjað/ léttskýjað.

15 janúar 2009

Rigning

Veður: 7,5/10° úrkoma 18,6 mm. Rigning, eða súld uppstyttu lítið í dag.

Vitanlega hættir maður sér ekki út fyrir dyr í svona veðri, en það er nú bara af því að það er von á betra veðri á morgunn.

14 janúar 2009

Teygðar og togaðar mínútur.

Veður: -0,8/12° Skýjað, virðist vera að undirbúa rigningu.

Teygðar mínútur, mínútu mælikvarðinn er ansi teygjanlegur hér í landi fimm til tíu mínútur eru að lágmarki hálftími til klukkustund og í verstu tilfellum heill dagur eða jafnvel meira. Ég fékk smá sýnishorn af þessu í dag þegar ég fór með skó í viðgerð til skósmiðsins hér í Albergaria. Jú þeir áttu að vera tilbúnir síðdegis, svo það virtist henta vel að fara í verslunarferð til Aveiro á meðan gert væri við skóna, þegar við komum til baka og vitjuðum um skóna var verið að vinna við þá og bara fimm mínútur þar til verkinu væri að fullu lokið. Við sögðumst bara skreppa á kaffihús á meðan við biðum, en þó við gæfum okkur góðan tíma til að drekka úr kaffibollunum máttum við bíða góða stund eftir að vinnunni við skóna væri lokið. Þetta voru bara dæmigerðar fimm mínútur hér í landi og ekkert sem kom á óvart. En það sem mestu máli skiptir að skórnir eru komnir með nýja hæla og verkið virðist vera mjög vel unnið og ekki er möglegt að mögla yfir verðinu á vinnunni 7€ takk.

13 janúar 2009

Veður

Veður: 4,7/14,1Ŝ úrkoma 17,2mm. Rigning í nótt, skýjað til hádegis, en léttskýjað síðdegis.