
Veður: Þoka í lofti fyrst í morgunn, en síðan fór að létta til og orðið heiðskírt í kvöld. +17°/8°
Eftir venjuleg morgunverk í morgunn, það er að segja að koma sér á fætur, sem gekk bara vel að venju, nú svo er að fá sér ávöxt í morgunmat og góðan kaffisopa á eftir. Þá er að setjast við tölvuna og athuga með veðurspá fyrir næstu daga. Þetta með veðurspána er bara kækur hjá mér síðan ég var á Íslandi þar sem maður átti svo mikið undir því komið hvernig veðrið var. Hér gegnir öðru máli því hér er oft sama veður dag eftir dag, en breytist ekki á klukkutíma fresti eins og á Fróni. En ég hef gaman af að spá í þetta og læt það bara eftir mér.
Þá var næst á dagskrá að far í verslun sem LIDl heitir en það er einskonar Bónus okkar hér í Portúgal. Ég fæ fréttabréf frá þeim í tölvupósti tvisvar í viku og í dag átti að vera til sölu hjá þeim hraðamælar á reiðhjól. Ég á slíkan grip, en langaði til að athuga hvort þessir mælar væru með stærri stöfum en mælirinn sem ég á, svona til að vega upp á móti því sem sjónin hefur daprast hjá mér. Mælirinn var ekki til svo það voru bara keyptar matvörur, svona til að fylla upp í skörð sem komin voru í matarlagerinn.
Á heimleiðinni stoppuðum við í bakaríi og keyptum sneið af pitsu og nýtt brauð, því það var komið hádegi þegar hér var komið sögu. Við bjuggum til gott hrásalat með pitsunni.
Eftir matinn var svo farið í að reita arfa úr matjurtunum.
Eftir kaffið fórum við svo í góðan göngutúr hér í þorpinu, á þeirri göngu vorum við að fylgjast með því í hvaða hús kirkjan eða hennar fólk hefði sent sína fulltrúa á páskadag til að blessa húsin og fólkið sem í þeim var. Þetta sést á því að blómum og grænum greinum hefur verið stráð á gangstígana heima að stofudyrum þar sem kirkjunnar menn fara inn. Þetta er siður hér að fá prestinn eða hans fulltrúa, til að fara í hús á Páskadag til að blessa heimilin og íbúa þeirra. Presturinn lætur bara umboð sitt til einhverra mætra manna sem færðir eru í rauða skikkju og fá með sér tvo eða þrjá aðstoðarmenn. Einn þeirra hefur það hlutverk að hringja bjöllu til að boða komu þeirra, annar heldur á stórum róðukrossi. Þegar kirkjunnar menn koma í stofuna þar sem húsráðendur eru fyrir ásamt gestum sínum, les presturinn (eða staðgengill hans) ritningargreinina úr Biblíunni þar sem segir frá upprisu Krists og blessunarorð fólkinu til handa. Síðan kyssa allir krossinn og komumönnum er skenkt vín í glas og boðnar smákökur. Að því loknu hraða þeir sér í burtu, því það er í mörg hús að fara og skyldi engan undra þó hópurinn sé orðinn góðglaður þegar dagur verður að kvöldi kominn.
Þegar gönguferðinni lauk litum við inn hjá nágrönnum okkar þeim Matthild og Manúel, til að fá hjá þeim ferðasögu , en í síðustu viku fóru þau í ferðalag ásamt syni sínum og hans fjölskyldu. Þau eru orðin sextíu og átta ára gömul og þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem þau fara í frí á baðströnd. Að vonum fannst þeim þetta mikið ævintýri og frúnni langar að far í svona ferð oftar, en bóndinn var ekki alveg eins spenntur, þó honum hefði líka þótt mjög gaman. Þau tóku heilmikið af myndum í ferðinni sem þau voru að sýna okkur. Þau eru ekki búin að eiga myndavél nema í eitt ár og það var Þórunn sem gaf þeim þessa myndavél.
Matthild sagðist bara alveg hafa sleppt því að hugsa um hvernig geitunum, hænsnunum og öðrum hennar skepnum liði á meðan hún var í fríinu, hún semsagt var í fríi og naut þess. Nágrannar hennar hugsuðu um skepnurnar fyrir hana, svo hún þurfti ekki að hafa neinar áhyggjur af þeim.
Þau eru mjög góðir grannar, til dæmis um það er að ég hitti Malla hér úti á götu í morgunn með úðabrúsa á bakinu sem hann notar til að úða grænmetið fyrir myglu og sníkjudýrum. Ég spurði hvort nú væri rétti tíminn til að gera slíkt, því ég er ekki of vel að mér í þessum fræðum. Jú nú þarf að úða við myglu sagði Malli. Ert þú ekki með kartöflur spurði hann svo, jú svaraði ég, þá úða ég þær bara í leiðinni, mig munar ekkert um það og ekki orð um það meir. Svona eru þau alltaf reiðubúin til að hjálpa okkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli