
Veður: 15°/25° léttskýjað
Við fórum í leikfimi í morgunn og höfðum gagn og gaman af. Í lok leikfimitímans var rætt um hvernig haga skyldi picnic ferð sem fara á næsta föstudag í stað leikfiminnar. Þær töluðu nær allar í einu blessaðar konurnar á meðan verið var að ræða tilhögunina á þessari ferð. Þó allir töluðu í einu og enginn virtist hlusta, þá fékkst samt niðurstaða í málið. Það á sem sagt að fara gangandi í garð sem er í næsta þorpi og þar á að grilla sardínur, en svo eiga þátttakendur að koma með drykki og eitthvað gómsætt, enda veitir ekki af að bæta sér eitthvað í munni eftir að borða sardínur. Fólki hér finnst þær yfirleitt mjög góðar en ég hef ekki lært að meta þær og eins er með leikfimikennarann, hún segir að sér finnist þær ekki góðar.
Þegar heim kom fór ég að vinna í garðinum og nú greip ég til stórtækra aðgerða gegn arfanum, ég semsagt úðaði gróðureyði meðfram öllum limgirðingum, blómabeðum og í þau beð sem blómin þola gróðureyðinn, en það verður að gæta þess vel að það fari ekki úði á sjálfar plönturnar. Þetta heitir vistvænn gróðureyðir sem ég nota, hvað svo sem það merkir veit ég ekki.
Síðdegis sóttum við svo sláttuvélina, en við fórum með hana í viðgerð í gær og var þá sagt að við mættum sækja hana í dag. Auðvitað trúðum við slíku loforði mátulega, en viti menn, hún var tilbúin þegar við komum og nú malar hún eins og köttur, einhver munur eða höktið sem var orðið á henni upp á síðkastið.
Með þessum pistli fylgir mynd sem tekin var af rós hér í garðinum í dag
Engin ummæli:
Skrifa ummæli