Veður: 9,2°/24,4° Alskýjað og rigningardropar af og til.
Það standast ekki allar áætlanir hjá mér, í dag var ég búinn að ráðgera að ljúka við að slá garðinn, en það var svo blautt á að ég varð að fresta því. Það er spáð sólskini á föstudag, svo slátturinn verður bara að bíða þangað til.
Ég var svolítið að hrella arfann, en hann var orðinn mjög bjartsýnn á að í þessum garði fengi hann að dafna óáreittur, því það hafði ekki verið hróflað við honum í nær þrjár vikur. Honum hefur væntanlega brugðið ila þegar erkióvinurinn birtist á ný og reif hann upp með rótum.
Grassa vinkona okkar kom í heimsókn í dag. Henni varð tíðrætt um kennslu og skólamál eins og fyrri daginn, enda er hún kennari. Hún var meðal annars að segja okkur að nú væri hún á námskeiði til að læra betur að kenna efnafræði og nýta tæki í efnafræðikennslu.
Þetta er að sjálfsögu gott og blessað svo langt sem það nær, en þjónar engum tilgangi, því það er ekki eitt einasta tæki til í skólanum til að kenna efnafræði og þar sem endurmenntunin fer fram er svo lítið til að slíkum tækjum að það verður að senda endurmenntunarnemendurna í háskálann í Aveiro öðru hvoru til að þeir sjái hvernig þessi tól líta út.
Það má eiginlega segja að það séu engin kennslutæki í þessum skóla og hann er engin undantekning hvað það varðar. Það eina sem er í kennslustofunni er borð og stólar, ein tafla, gamalt og löngu úrelt landakort, tvær nettengdar gamlar tölvur. Þetta er ekki langur listi, en þó ótrúlegt sé er hann tæmandi og ástandið er enn verra sum staðar.
Geiri og Rósa komu í heimsókn síðdegis, við fórum svo öll saman niður í Aveiro aðallega til að leyfa þeim að reyna hvernig er að sitja í nýja bílnum okkar, nú auðvitað var aðeins litið inn í búð í leiðinni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli