19 nóvember 2007

Maður líttu þér nær.



Bátur á siglingu í Vestmannaeyjahöfn.

Það sannast rækilega á mér að oft er leitað langt yfir skammt. Ég er búinn að vera nokkuð duglegur við að ferðast um dagana til að sjá fjölbreytt landslag og mismunandi mannlíf og alltaf notið þess sem fyrir augu hefur borið á hverjum tíma. Einn var sá staður sem ég ætlaði mér alltaf að skoða, en kom aldrei í framkvæmd að heimsækja, ef til vill vegna þess að það var svo stutt að fara þangað, að það mátti alltaf bíða aðeins lengur. Þessi merki staður er Vestmannaeyjar og þar steig ég semsé niður fæti í fyrsta sinn núna um helgina og fannst mikið til um það sem fyrir augu bar.
Við lögðum upp með Herjólfi frá Þorlákshöfn um hádegi á laugardag og komum aftur til sama lands um kvöldmat á sunnudag eftir ánægjulega dvöl í Eyjum. Þar sem ég er nú enginn sjóhundur átti ég frekar von á að verða sjóveikur, en það reyndist óþarfi því skipið hreyfðist ekki alla leiðina, þetta var næstum eins og að sitja í stól inni í stofu.
Við erum svo heppin að eiga kunningjakonu í Vestmannaeyjum og hún tók á móti okkur á bryggjunni og ók síðan með okkur um alla eyjuna bæði um gamla hluta eyjunnar og eins um þann hluta sem nýja hraunið þekur.
Ég er búinn að sjá margar myndir og hlusta á margar lýsingar á Vestmannaeyjum og staðháttum þar, en samt kom flest sem bar þarna fyrir augu mér verulega á óvart, svo ég ætla ekki að reyna að lýsa því fyrir öðrum.
Án frábærrar leiðsagnar og gestrisni kunningjakonu okkar hefði þessi ferð ekki orðið svona ánægjuleg og færi ég henni hér með mínar bestu þakkir fyrir mótökurnar.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég var mikið að hugsa um það á laugardaginn þegar rokið var sem mest, hvort þið yrðuð ekki sjóveik í Herjólfi. Það er því mikil ánægja að heyra að ferðin var í alla staði svona vel heppnuð.
Kær kveðja frá okkur Hauki til ykkar beggja.