19 ágúst 2006

Jólatréð

Veður: 12,5°/27,2° Regnskúr um hádegi en birti til síðdegis.

Fyrir um tíu árum var sú ákvörðun tekin hér í kotinu að vera með lifandi grenitré sem jólatré, að þeirri ákvörðun tekinni var skundað í næstu gróðrarstöð til að velja tré. Fyrir valinu varð dökkgrænt tré með þéttum greinum rúmur metri á hæð.
Um jólin stóð svo tréð stolt í stofunni hér í litla kotinu, skreytt með jólastjörnu, ljósum og ýmsu því sem notað er til að prýða jólatré.
Þegar þessu hlutverki trésins var lokið var ákveðið að finna því nýtt hlutverk til frambúðar á litla kotbýlinu.
Nú var því fundinn staður úti í horni á garðinum. Mikið varð tréð ánægt þegar það losnaði úr þessum þrönga potti sem það var búið að dúsa í síðustu ár.
Það hefur vaxið hratt síðan það losnaði úr prísundinni og nú er það komið upp fyrir síma og rafmagnslínur sem liggja þarna yfir.
Hér fyrir neðan er mynd sem tekin var af trénu í dag, það myndi sóma sér vel sem jólatré á bæjartorgi svo stórt er það orðið.

Engin ummæli: