Dagur í frumskógi möppudýranna er viðeigandi fyrirsögn fyrir dagbókina í dag.
Ekki var verkefnið stórt sem þurfti að leysa, aðeins að umskrá hjólhýsið af mínu nafni yfir á nafn Grössu.
Hún vissi um skrifstofu í Albergaria sem hún hélt að gæti afgreitt okkur með þetta lítilræði. Við þangað og eftir nær klukkustundar bið kom í ljós að þeir höfðu ekki þau gögn sem þurfti til að geta lokið þessu af, því þarna er aðeins útibú frá aðalskrifstofunni sem er í Aveiro.
Þegar hér var komið sögu var gert matarhlé og ákveðið að fara á skrifstofuna í Aveiro strax eftir matinn.
Þar vorum við mætt klukkan tvö á stóra skrifstofu, þar sem mjög margt fólk beið afgreiðslu. Ekki að ástæðulausu voru auglýsinga festar upp á vegg þar sem fólk var beðið afsökunar á því að afgreiðsla gæti tekið langan tíma.
Þegar inn var komið sat öryggisvörður við skrifborð og á skrifborðinu hjá honum voru nokkrar mismunandi gerðir af rúllum sem venjulega eru í þar til gerðum vélum á biðstofum. En þarna þarf að snúa sér til öryggisvarðarins og segja honum hvert erindið er og þá lætur hann þig hafa númer af viðeigandi rúllu.
Eftir klukkustundar bið var komið að okkur,raunar var það Grassa sem sá um að vinna verkið. Hún sagði afgreiðslustúlkunni hvert erindið var og þá prentaði stúlkan út lista yfir þau gögn sem þyrfti að skila inn. Næsta skref var þá að fá keypt viðeigandi eyðiblöð á þessari skrifstofu, en því miður var eitt eyðublaðið ekki til þarna svo við máttum sendast bæinn á enda til að ná í það eyðublað. Við til baka inn á skrifstofuna til að fylla út öll þessi blöð sem við vorum komin með, en þegar Grassa var fylla þetta alt saman út sá hún að það vantaði ljósrit af vegabréfinu mínu, en á skrifstofunni er ekki hægt að fá ljósritað. Nú var klukkan að verða fjögur og skrifstofunni lokað á mínútunni fjögur, svo Grassa fór með hraða eldingar eitthvað út í buskann þar sem henni var sagt að hægt væri að fá ljósritun.
Hún slapp inn aftur í tæka tíð og klukkan hálf fimm var búið að afgreiða málið. Hún komin með bráðabirgða skráningarskírteini fyrir hjólhýsinu á hennar nafni, en endanlegt skírteini fær hún svo sent seinna.
Svo er verið að birta hagtölur hér í landi um lélega framleiðni, varla að undra þegar stór hluti þjóðarinnar eyðir heilu og hálfu dögunum á biðstofum hins opinbera.
Myndin hér fyrir neðan er af Grössu við að fylla út eyðublöðin.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli